144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[20:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segist ekki hafa myndað sér skoðun um hverja virkjun fyrir sig. Það er allt í lagi, þannig á það að vera, umræðan hér á Alþingi á að fjalla um það. Undir þessum lið átti bara að vera einn virkjunarkostur, ein tillaga, tillaga ráðherrans. En því miður, eins og ég hef margfarið yfir, eru fleiri settir inn með breytingartillögu.

Hv. þingmaður ræddi líka um formið. Ég gerði að umtalsefni í ræðu minni þetta form sem ég vildi sjá eftir að við samþykktum lögin samhljóða hér á Alþingi og fleiri um þetta mál. Ég er sem sagt algjörlega sammála honum hvað þetta varðar.

Síðan spyr hann mig af hverju Hagavatnsvirkjun sé komin þarna inn. Ég verð bara að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég veit ekki af hverju hún ratar inn í breytingartillögu hjá meiri hlutanum. Þar er til dæmis alveg skýrt að það eru miklu fleiri en hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem segja að Hagavatnsvirkjun komi ekki til greina. Það er þá vegna þess að verkefnisstjórnina vantar miklu frekari gögn til að fara í gegnum, þar með talið að þeir sem vilja virkja ættu þá að senda gögnin inn til að verkefnisstjórnin og faghóparnir geti metið þau og farið í gegnum þau. Þannig er þessi lögbundni ferill. Og kannski er besta dæmið sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður spyr um, Hagavatnsdæmið, um það hvernig þetta á að ganga fyrir sig.