144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svarið er einfaldlega hreint nei við því, hvort sem það er atvinnuveganefnd öll eða meiri hluti nefndarinnar, hún getur að sjálfsögðu aldrei tekið að sér þau störf sem skrifuð eru í lögin um hvað verkefnisstjórnin og faghópar eiga að gera. Þeir gera akkúrat það sem hv. þingmaður gat um hér, lýsa eftir og kalla eftir áliti Fornleifastofnunar og allra þeirra aðila sem eiga að gefa umsagnir og annað slíkt.

Þessi gögn eiga nefnilega líka að fylgja með frá verkefnisstjórn til ráðherra og frá ráðherra til auglýsingar þannig að öllum almenningi eiga að vera þessi gögn aðgengileg og sýnileg. Ekkert af þessu var gert. Þegar breytingartillagan var send út til umsagnar var bara eitt atriði í viðbót í samræmi við lögin og skýringartexta með lögunum, þar var líka allt þverbrotið, vegna þess að þegar breytingartillagan var send út til umsagnar, sem var vissulega gert, voru gögnin ekki send með. Fólk sem vildi gefa umsögn hafði engar forsendur, fagleg álit og gögn með eins og gera á (Forseti hringir.) ef þetta hefði verið í hinu lögformlega ferli verkefnisstjórnar.