144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller flutti hér stórkostlega ræðu og það er mikill skaði að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ekki hafa setið undir henni. Hingað komu menn til að ræða fundarstjórn forseta að loknu hléi í kjölfar yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra gaf. Ég tel algjörlega nauðsynlegt að hæstv. ráðherra skýri fyrir okkur hvaða afstöðu hún hefur. Ég hef, eins og hún og aðrir þingmenn, svarið eið að stjórnarskránni og stjórnarskráin segir algjörlega skýrt að menn eigi að fara að sannfæringu sinni.

Það vill svo til að hæstv. ráðherra hefur gert þingheimi og þjóðinni þann greiða að upplýsa um sannfæringu sína. Sú sannfæring felur það í sér að hún kýs það helst að einungis yrði farið að hinni upphaflegu tillögu núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem gegndi embætti hennar áður og ég tel þess vegna algjörlega nauðsynlegt að hæstv. ráðherra upplýsi hvort hún ætli að fara að stjórnarskránni og greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína.