144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta var ákveðið lykilatriði sem virðulegur forseti kom hér að, þ.e. þeirri forsendu að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar vilji taka til máls. Það hefur verið ákveðinn skortur á því að hv. þingmenn stjórnarliðsins sem og hæstv. ráðherrar vilji yfir höfuð taka þátt í rökræðum á þingi. Það er eins og hlutverk Alþingis sem málstofu hafi farið fram hjá þeim og mér finnst það vera atriði sem þurfi að ræða undir liðnum fundarstjórn forseta, að við erum hér að ræða um tillögu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sem kýs að tjá afstöðu sína til breytingartillögu, þessarar tillögu, í sjónvarpsfréttum. Hún kýs ekki að koma hingað, hvort sem er í andsvör eða í ræðu, til að greina okkur, hv. samþingmönnum sínum, frá afstöðunni.

Það er til fyrirbæri í málfræði sem er kallað málótti og ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherrar séu almennt haldnir málótta, þeir þori ekki að opna munninn hér og það snúist um að þeir óttist að vera rifnir niður eða hvað það er. Það er alvarlegt mál þegar hæstv. ráðherrar velja frekar (Forseti hringir.) að gera grein fyrir skoðunum sínum í sjónvarpsfréttum og leggja ekki í að koma hingað og eiga samtal við okkur þingmenn.