144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er umhugsunarefni hvort hæstv. ráðherrar séu haldnir málótta sem sé ástæðan fyrir því að þeir koma ekki í ræðustól. Mér er þó nær að halda að þeir séu haldnir þingótta því að einhverra hluta vegna eru þeir ekki með þingkærustu fulltrúunum á löggjafarsamkomunni.

Ég tel óhjákvæmilegt, eins og hér hefur verið rakið, að hæstv. umhverfisráðherra komi hingað, geri þinginu grein fyrir afstöðu sinni og gefi yfirlýsingu til að þessi umræða geti haldið áfram. Ég vek líka athygli á því að undir lok umræðu um fundarstjórn forseta áðan datt upp úr hv. þm. Jóni Gunnarssyni að hann hefði umboð og bakstuðning í þessu máli frá þeim sem máli skipti í málinu, það væri ekki umhverfisráðherra landsins heldur væru það oddvitar stjórnarflokkanna. Enga menn þekki ég sem eru verr haldnir þingótta en akkúrat þeir tveir, sérstaklega forsætisráðherrann. Er því kannski ástæða til að þeir sem hafa gefið hv. þm. Jóni Gunnarssyni valdið í málinu komi hingað og eigi við okkur orðastað (Forseti hringir.) um efnisatriði málsins.