144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra er komin í þingsalinn og hefur aukinheldur sett sig á mælendaskrá því að það er sannarlega þörf á því. Hv. þingmaður og framsögumaður álits 2. minni hluta, Lilja Rafney Magnúsdóttir, hefur tjáð sig um að hún telji eðlilegt og sjálfsagt að hæstv. ráðherra fái að fara á mælendaskrá og halda ræðu næst. Ég held að hæstv. forseti ætti að íhuga það tilboð vegna þess að staðan er mjög óvenjuleg, ekki bara efnislega heldur ekki síður pólitískt. Það eru áhöld um að það sé yfir höfuð stuðningur við þá tillögu sem hér er verið að ræða. Það er varla tækt að framsögumönnum minni hluta sé ætlað að ræða og reifa sitt minnihlutaálit með andsvörum meðan málið er í lausu lofti eins og hér hefur komið fram eftir það sem kom fram hjá hæstv. umhverfisráðherra í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ráðherrann verður að vera næst á mælendaskrá til að stilla umræðuna af (Forseti hringir.) þannig að við áttum okkur á því á hvaða grundvelli umræðan hvílir akkúrat núna.