144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:33]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég lýsi yfir fögnuði með að hér sé staddur í salnum hæstv. umhverfisráðherra. Það er mjög ánægjulegt sem og það að hann sé kominn á mælendaskrá. Ég er líka mjög ánægður með yfirlýsingar hæstv. ráðherra í kvöldfréttum í kvöld. Það er ánægjulegt að sjá þá varðstöðu sem hæstv. ráðherra tekur með lögunum um rammaáætlun.

Ég veit að hæstv. ráðherra sem hefur verið lengi í pólitík mundi ekki gefa slíkar yfirlýsingar án þess að vera með stuðning í sínum hópi sem veitir henni umboð til að vera ráðherra. Það er ánægjulegt að sjá að í stjórnarflokkunum er ekki einhugur um þetta vonda mál og þær vondu breytingar sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur hér til. Þess vegna er full ástæða til að lýsa yfir fögnuði með það.

Ég lýsi hins vegar yfir nokkurri undrun á því að fulltrúar stjórnarmeirihlutans í umhverfisnefnd þingsins skuli ekki vera við þessa umræðu og þátttakendur í henni. Það er alveg stórfurðulegt (Forseti hringir.) að það skuli bara vera við hv. þm. Svandís Svavarsdóttir í umhverfisnefnd þingsins sem erum hérna viðstödd, og reyndar hv. þm. Katrín Júlíusdóttir.