144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Undir þessum lið höfum við verið að ræða það sjónarmið núverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrúnar Magnúsdóttur, sem kom fram í kvöldfréttum þar sem hún sagði að hún hefði helst viljað að upphafleg tillaga fyrrverandi umhverfisráðherra hefði ein og sér verið tekin til umræðu og atkvæðagreiðslu en ekki breytingartillagan.

Það er virðingarvert. Annar ráðherra í ríkisstjórn Íslands er nefnilega sama sinnis, fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson. Hann skrifaði bréf til verkefnisstjórnar og bað hana að taka alla þessa flokka til endurskoðunar. Verkefnisstjórnin treysti sér ekki til þess heldur lagði bara til Hvammsvirkjun. Ráðherrann treysti sér ekki til að ganga gegn því áliti verkefnisstjórnar og lagði bara til Hvammsvirkjun þannig að það er ekki einn ráðherra heldur tveir í núverandi ríkisstjórn sem eru andvígir breytingartillögunni. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það virðingarvert af þessum tveimur ráðherrum en mér finnst líka að þeir eigi að taka þátt í umræðunni og láta þessi sjónarmið koma fram og hvað liggur á bak við rökstuðning fyrir ákvörðun þeirra. Það mundi stytta umræðuna og auðvelda okkur vinnuna.