144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er nú eitt af því sem mér fannst vera með ólíkindum í umfjöllun nefndarinnar varðandi Hagavatn, af því að það virtist vera að búið væri að telja mörgum trú um að þarna væri á ferðinni rennslisvirkjun sem þýddi að vatnsyfirborðið væri stöðugt. Í gögnum Orkustofnunar er Hagavatn skilgreint sem rennslisvirkjun.

Síðan kemur í ljós að vatnssveifla verður við þetta í Hagavatni sem nemur um fimm, sex metrum. Það þýðir að ákveðin hluta ársins verður þetta bara moldarbarð sem fýkur upp, sandfok og jarðvegseyðing, sem heimamenn vilja auðvitað alls ekki. Þeir sem styðja að Hagavatnsvirkjun sé gerð reikna með því að þarna sé stöðugt vatnsyfirborð sem komi í veg fyrir frekari uppfok. En það er því miður ekki svo. Komið hefur fram að mikið rask fylgir Hagavatnsvirkjun og flatarmálið vatnsins breytist um sex kílómetra og það er ekkert smávegis. Það getur ekki talist stöðugt jafnrennsli þegar vatnssveifla er upp á fimm metra og flatarmálið breytist um sex kílómetra, það getur aldrei talist stöðugt lón. Ég tel því að þeir sem vilja virkja þarna hafi beitt ákveðnum blekkingum gagnvart heimamönnum.