144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján L. Möller fór vandlega yfir í ræðum sínum bæði fyrr í dag og hér áðan þau álit sem lögð voru fyrir atvinnuveganefnd í lok nóvember af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og síðar af hálfu atvinnuvegaráðuneytisins um hvaða frelsi og rými Alþingi hefði til þess að taka ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við það sem verkefnisstjórn skilar af sér. Það er býsna afgerandi sem kemur fram þar, á minnisblaði umhverfis- og auðlindaráðuneytis segir að í ljósi fyrri umfjöllunar verði að telja að þar sem verkefnisstjórnin hafi ekki fjallað ekki efnislega um fimm tilgreinda virkjunarkosti eins og lög gera ráð fyrir, og nefnir þar Skrokköldu og Hagavatn sem dæmi, séu umræddir virkjunarkostir enn þá í umfjöllun verkefnisstjórnar að mati ráðuneytisins. Þess vegna sé það þeirra mat að lögin geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hafi ekki farið fram hvað þessa kosti varðar.

Í áliti frá atvinnuvegaráðuneytinu, orku- og auðlindaskrifstofunni, koma svipuð sjónarmið fram, þ.e. að samkvæmt strangri túlkun á lögunum væri hægt að halda því fram að Alþingi gæti eingöngu gert breytingu hvað varðar þann tiltekna kost sem lagður hefur verið fram í þingsályktunartillögu. Það virðist hafa komið nefndarmönnum á óvart í umræðunni. Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Var engin umfjöllun um þau álit, sem eru býsna afgerandi, sem komu frá þessum tveimur ráðuneytum? Og ef svo var, hvernig afgreiddi þá meiri hlutinn umræðuna um þessi álit? Var þeim bara ýtt til hliðar án umræðu?