144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þá alla vega kostur að minni hluti nefndarinnar hefur verið með meðvitund á þessum fundum, því að þessi álit fóru augljóslega ekki fram hjá minni hlutanum enda rötuðu þau inn í prýðisgóð nefndarálit frá þeim. En það er algjörlega ljóst að meiri hluti nefndarinnar hefur ákveðið að horfa fram hjá álitum þessara tveggja ráðuneyta. Það er mjög alvarlegt að mínu mati þegar svo er gert, vegna þess að í álitum þessara tveggja ráðuneyta er verið að staðfesta það sem við höfum sagt, að hér sé á ferðinni sniðganga á lögum um rammaáætlun. Undir það er tekið af hálfu beggja þessara ráðuneyta.

Virðulegi forseti. Ég verð þess vegna að segja að mér finnst þetta kalla á að málið verði tekið af dagskrá, tekið aftur inn í nefnd og fjallað betur um það, vegna þess að meiri hluti nefndarinnar hefur klárlega ekki rökstutt hvers vegna — ég sé að hv. þm. Páll Jóhann Pálsson hristir hér hressilega höfuðið, (Forseti hringir.) en hann hefur ekki staðið hér og rökstutt það hvað sé rangt við þessi álit og það sem fram kemur í þeim. (PJP: Ég er búinn lesa þessi álit.) Hann leggur ekki í það.