144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það væri gott að fá hv. þingmenn úr meiri hluta atvinnuveganefndar hér upp og útskýra fyrir okkur hvaða rök þeir hafa gegn þeim rökum sem koma úr viðkomandi ráðuneytum. Þau rök hljóta að vera ansi skotheld ef menn telja sig geta staðið á þeim. Þeir hafa þá lagt í mikla gagnavinnu með lögfræðilegum álitum hist og her ef þeir treysta sér til þess að rísa gegn þessum ráðuneytum varðandi álitin. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað grundvallarmál. Mér heyrist hv. þm. Páll Jóhann Pálsson (Gripið fram í.) vera áfjáður í að komast í ræðustól til þess að standa fyrir máli sínu, en menn þurfa að fara eftir leikreglum varðandi fundarsköp, menn verða að virða þær reglur.