144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það hlýtur náttúrlega að vekja furðu allra þeirra sem fylgjast með þessari umræðu hvers vegna í ósköpunum alþingismenn eru að eyða tíma sínum í þetta furðuupphlaup atvinnuveganefndarmeirihlutans þegar menn ættu hér á þingi að vera að vinna þarft og bæta kjör heimilanna í landinu, hag heimilanna í landinu, fólksins sem kallar eftir kjarabótum eftir erfiði um langt árabil.

Það er ástæða til að undirstrika að það er ekki vilji okkar í stjórnarandstöðunni að standa í þessu þrugli. Við erum hins vegar tilneydd vegna þess að meiri hlutinn hefur beitt okkur ofríki í atkvæðagreiðslu við að setja þetta deilumál hér á dagskrá. En vegna þess sem fram kom hjá síðasta hv. ræðumanni, að atvinnuveganefnd hefur að mestu ef ekki öllu leyti láðst að fara yfir lögfræðiálit umhverfisráðuneytisins, þá hvet ég forseta til að vísa málinu á nýjan leik til umfjöllunar í atvinnuveganefnd áður en það verður tekið hér til frekari umræðu.