144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, fyrr en hv. 6. þm. Suðvest. kom upp í pontu, tók til máls og byrjaði að tala um málþóf. Eins og gerist venjulega lengist umræðan vegna þess að hv. þingmaður segir yfirleitt eitthvað sem er alveg þess virði að tala aðeins um.

Nú vill svo til að við höfum ítrekað rætt hér undir liðnum um fundarstjórn forseta í dag það sem gerist reglulega hér á þingi, þ.e. að við erum sett í þá stöðu að við þurfum annaðhvort að fórna einu eða öðru stórmálinu í umræðum. Nú er búið að margbenda á það frá upphafi þessa máls og frá því að málið komst fyrst á dagskrá að það eru stærstu kjaradeilur í gangi í landinu sem sést hafa í áratugi. (Gripið fram í.) Það er nokkuð sem þetta þing ætti að vera að einbeita sér að, ekki eingöngu þessum tilteknu kjaradeilum heldur einnig því hvernig takast á á við slík vandamál almennt. En í staðinn fyrir að einbeita okkur að því þá erum við föst hér í því að tala um annað mál sem er eitt stærsta deilumál nútímastjórnmálasögu Íslands. Það er ekki stjórnarandstöðunni að kenna. Það er ekki málþóf. (Forseti hringir.) Það er bara staðan sem minni hlutinn er settur hér í aftur og aftur og aftur. (Forseti hringir.) Og þess vegna kvörtum við undan því aftur og aftur og aftur, eðlilega.