144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef verið að velta því fyrir mér í ljósi framgöngu hv. þm. Jóns Gunnarssonar hér í dag hvort við ættum ekki bara að fela honum fundarstjórnina líka. Hv. þingmaður hefur verið að blanda sér dálítið í það hvernig haga mætti fundinum hér, svona eins og annað sem hann vill ráða. Er þá ekki bara best að hann taki við þessu öllu og setjist líka á forsetastólinn? Hann getur svo talað þaðan og flutt sínar ræður og andsvör þaðan (Gripið fram í: Það væri víst heimilislegt.) og þá er þetta bara komið á þá hendi sem hv. þingmanni finnst greinilega eðlilegast. (Gripið fram í: Hann mundi …)

Þessi dagur hefur nefnilega að mörgu leyti verið ágætur og þá sérstaklega að einu leyti. Hv. þm. Jón Gunnarsson hefur algerlega afhjúpað sig í málflutningi hér í dag sem erindreki gömlu dólgastóriðjustefnunnar og þarf í raun engin önnur rök. Bara virkja og virkja og virkja í þágu stórfabrikkanna og þá er þetta komið. Hann eyddi tveimur þriðju af framsöguræðu sinni með hinu dæmalausa nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta atvinnuveganefndar í málflutning í anda gömlu stóriðjustefnunnar, enda hafði hann svo sem engin rök fyrir hinu. Þetta er gagnlegt (Forseti hringir.) því að þá kemur í ljós hverjir eru fylgismenn hv. þm. og leiðtoga Jóns Gunnarsson í 40 ára gamalli dólgastóriðjustefnu.