144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni urðu dálítil tíðindi í fréttum sjónvarps í kvöld þegar hæstv. ráðherra Sigrún Magnúsdóttir, sem er hér næst á mælendaskrá, lýsti því yfir að hún mundi helst vilja sjá þingið samþykkja óbreytta tillögu ráðherra frá því í haust. Það gildir líka um hæstv. ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, Sigurð Inga Jóhannsson, sem mælti fyrir þeirri tillögu á sínum tíma og hefur lýst yfir þeirri afstöðu.

Hér í þingsal er mættur hv. þm. Haraldur Einarsson, sem er fulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd og er einmitt þingmaður þess hins sama Framsóknarflokks. Ég tel fulla ástæðu til að hvetja hv. þingmann til að gera grein fyrir afstöðu sinni til þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir, bæði tillögu ráðherranna sem eru með honum í flokki og síðan þeirrar breytingartillögu sem stór hluti ríkisstjórnarflokkanna er hér að berjast fyrir.