144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka aðeins þátt í þessu málþófi með minni hlutanum til að leggja í þetta eitthvert innlegg. Formaður Vinstri grænna sagði áðan að umræðan í dag væri búin að vera gagnleg. Það má vel vera að það sé gagnlegt að ræða hér nánast í hverri einustu ræðu um ofríki Jóns Gunnarssonar og yfirgang og frekju hans, að það sé innihaldsríkur málflutningur. Mér finnst málflutningurinn helst hljóma af tækifærismennsku og lýsa meira þeim sem þannig tala. Ég sagði það í upphafi ræðu minnar fyrr í dag að háðsglósur og aðrar hnútur gagnvart mér tæki ég ekki alvarlega frá þessu fólki, ekki við þessa málsmeðferð.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um gömlu dólgastóriðjustefnuna og hv. þm. Róbert Marshall sagði að ég ætti að fara í útvíðar buxur og safna börtum. [Hlátur í þingsal.] Hvað hefur breyst (Forseti hringir.) frá síðasta kjörtímabili þegar við afgreiddum síðustu stóriðjuframkvæmdina á Íslandi undir forustu Steingríms J. Sigfússonar? (Forseti hringir.) Ég var ekki beðinn að safna börtum þá og fara í útvíðar buxur. Hvað hefur breyst hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni síðan þá? Þá var bara vel þegið að ég tók vel í málflutninginn og studdi málið þrátt fyrir að um væri að ræða stóriðjuverkefni sem hlaut ívilnanir sem engin fordæmi voru fyrir í íslenskri stóriðju, (Forseti hringir.) verkefni sem Vinstri grænir stóðu fyrir og hlaut meiri ívilnanir í skattalöggjöf og innviðauppbyggingu og slíku en nokkurt annað stóriðjufyrirtæki hafði áður fengið.