144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég bara get ekki orða bundist yfir þessu tali hv. 6. þm. Suðvest. um málþóf. Frá því að við byrjuðum þessa umræðu í dag hefur hún verið brölt frá upphafi til enda, þar til tiltölulega nýlega þegar fundarstjórn hætti að vera sjálfstætt vandamál í allri þessari umræðu. Einnig vil ég benda hv. þingmanni á að hér hafa verið fluttar örfáar ræður sem allar hafa verið efnislega ólíkar. Það hafa verið framsöguræða, nefndarálit og svo annað nefndarálit þar sem misjöfn sjónarmið koma fram. Enda er það þannig, sem ætti ekki að koma hv. þingmanni á óvart né nokkrum öðrum, að þetta er stórt mál. Það tekur sinn tíma að ræða það, eðlilega, og þegar fundarstjórn er eins og hún hefur verið í dag þá er ekkert skrýtið að við tölum um hana.

Þegar fréttir bárust síðan í kvöld af viðhorfi hæstv. umhverfisráðherra þá er ekkert skrýtið að við tölum um það. Það tekur sinn tíma eins og lá fyrir í upphafi. Það er ekki málþóf. Það heitir bara Alþingi.