144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Nú getum við þingmenn spurt ráðherrann í andsvörum. Það sem mig langar að spyrja út í í fyrra andsvari mínu varðar það sem fram kom í fréttum fjölmiðla í kvöld, sérstaklega við Stöð 2, þar sem hæstv. ráðherra sagði að hún vildi helst óbreytta tillögu forvera síns í starfi, þ.e. um Hvammsvirkjun. Í því áliti sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið skrifaði til nefndarinnar eftir beiðni okkar frá nefndinni, sem ég hef sagt að sé lögskýringarálit, að vísu er það skrifað í tíð fyrrverandi umhverfisráðherra, segir ráðuneytið að breytingar á flokkum þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hafi ekki farið fram hvað þá varðar.

Það er alveg skýrt frá ráðuneytinu og er, eins og ég segi, mjög mikilvægt innlegg í þessa umræðu og lögskýringargagn. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Styður hæstv. ráðherra breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) um fjóra nýja virkjunarkosti í nýtingarflokk?