144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það komið inn í þingtíðindi sem umræða um þetta mál að hæstv. ráðherra styður ekki tillögu um Hagavatnsvirkjun og Skrokkölduvirkjun. Það er alveg klárt. Hún styður hins vegar þær þrjár tillögur sem eru í Þjórsá. Nú er það komið fram. Ég vek athygli á því að þetta er ráðherra málaflokksins. Ég vil líka í seinna andsvari mínu spyrja hæstv. ráðherra út í það sem forveri hennar í starfi gerði með því að skrifa verkefnisstjórn bréf um að taka til skoðunar ákveðna átta virkjunarkosti. Fyrrverandi ráðherra komst að þeirri niðurstöðu eftir tillögu og gögn frá verkefnisstjórn að leggja aðeins Hvammsvirkjun til. Fyrrverandi ráðherra treysti sér ekki til að ganga gegn verkefnisstjórninni og lagði þess vegna bara til einn kost.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Var þetta rangt mat hjá fyrrverandi ráðherra (Forseti hringir.) eða er hún ef til vill sammála fyrrverandi ráðherra um að taka bara einn kost sem staðfestir þá það sem við höfum sagt og ráðuneyti hennar segir, að lögformlegur ferill hefur ekki farið fram?