144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Óskastaðan er auðvitað sú að þegar búið er að koma á laggirnar svona nefnd sem við treystum fyrir því margslungna ferli sem þarna fer fram að allir sætti sig við þá niðurstöðu. Ég endurtek að hún er samt ráðgefandi og það er ráðherra að taka síðan ákvörðun og þingsins. Ég veit ekki hverju ég á þar við að bæta, þingmaðurinn verður að meta það hvernig hann telur að traust til ráðherrans sé innan þingflokksins, ég ber mig mjög bærilega. Mín skoðun hefur komið fram í mínum þingflokki og ekki nema allt gott um það að segja. Við fáum að hafa okkar skoðanir.

Hér hefur verið talað um að hver þingmaður eigi að vera með sjálfstæða skoðun og fylgja sinni sannfæringu og ég hafði þessa sannfæringu áður en ég tók við þessu embætti og ég breytti ekkert um stíl.