144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra, en við erum ekki að tala um neitt smekksatriði, við erum að tala um að ráðherrann segir að tvær tillögur sem koma frá meiri hluta atvinnuveganefndar standist ekki lög um umhverfismál. Hæstv. ráðherra ber ábyrgð á því að lögum um umhverfismál sé fylgt. Það er líka í samræmi við það minnisblað sem var lagt fram af hálfu ráðuneytisins í tíð forvera hennar.

Ég hlýt að spyrja ráðherrann hvort hún gangi ekki eftir því við sinn þingflokk og þann stjórnmálaflokk, fyrir hönd hvers hún fer með málaflokkinn, gangi ekki eftir því að þingflokkurinn, formaður þingflokksins og aðrir ráðherrar flokksins fylgi lögum í þessu efni og standi ekki að því að brjóta lög um rammaáætlun sem hún ber ábyrgð á að menn fylgi.