144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að skýra betur afstöðu sína. Nú liggur það fyrir að verkefnisstjórn um rammaáætlun er skipuð til þess að leggja heildstætt mat á virkjunarmöguleika og gera tillögur um verndun, bið eða nýtingu. Hæstv. ráðherra sagði hér áðan að hún hefði fylgt fordæmi fyrirrennara síns í umhverfisráðuneytinu og lagt fram tillögu um einn virkjunarkost því að það var tillaga verkefnisstjórnar. Það er það sem hæstv. ráðherra var að segja okkur. Í næsta orði sagði hún líka að hún mundi styðja aðrar tillögur um virkjunarkosti í Þjórsá sem sama verkefnisstjórn mælir þó ekki með. Hæstv. ráðherra segir: Ja, við erum hársbreidd frá því að fá niðurstöðu.

Þurfum við ekki að vera alveg skýr með það þegar hæstv. ráðherra er embættismaður og stjórnvald, er þá ekki mikilvægt að hæstv. ráðherra fylgi þeim leikreglum (Forseti hringir.) sem löggjafinn hefur sett? Það á ekki bara við um þær tillögur sem hæstv. ráðherra gerir heldur (Forseti hringir.) líka um það hvernig hæstv. ráðherra hegðar sér að öllu leyti hér í þinginu. Mig langar að átta mig á þessu: Hvaða greinarmun gerir hæstv. ráðherra á þessu?