144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:47]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að umræða dagsins hafi sýnt að skilningur hv. þingmanna og hæstvirtra ráðherra á lögum um rammaáætlun er vægast sagt mismunandi. Við höfum ekki fengið fullnægjandi svör við þeim spurningum sem við höfum lagt hér fram í dag, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem varða þann lagaskilning. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni sem lagði til að þetta mál yrði tekið af dagskrá og skoðað til þess að við getum að minnsta kosti orðið sammála um þær lagalegu undirstöður, við sem skipum löggjafarasamkunduna og erum að ræða hérna þessa tillögu sem byggir á lögum um rammaáætlun, að við getum að minnsta kosti náð saman um það hvernig eigi að skilja þá undirstöðu. Þeim tíma væri þá betur varið en að ræða þessi mál nú úr ræðustól Alþingis á svo óljósum grundvelli.