144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Jón Gunnarsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér er þeirri spurningu velt upp hver sé pólitísk staða þessa máls. Pólitísk staða málsins er alveg kýrskýr. Þetta mál nýtur stuðnings meiri hluta stjórnarflokkanna. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að einstaka ráðherra eða þingmenn séu ekki sáttir við málið. (Gripið fram í: Einstaka?) Það er hægt (Gripið fram í.) og auðvelt fyrir ráðherra úr ríkisstjórn frá síðasta kjörtímabili að rifja upp hvernig þeir leystu þau mál. Þeir spörkuðu bara þeim sem fylgdu ekki samstarfinu út á kaldan klaka. (Gripið fram í.) Ég reikna ekki með að þau vinnubrögð séu viðhöfð í þessari ríkisstjórn eins og þá voru viðhöfð.

Lagaskilningurinn er alveg skýr í þessu máli líka. Lögin kveða ekkert á um málsmeðferð Alþingis í þessu efni, þau kveða á um málsmeðferð á stjórnsýslustigi. Þegar hér er farið fram á að (Forseti hringir.) önnur mál komi á dagskrá á morgun þá lít ég á það sem ákveðinn flótta undan því að taka (Forseti hringir.) hér málefnalega umræðu um þetta mál.