144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Dag skal að kveldi lofa og því miður er nú ekki mikið til að lofa hér úr þingsalnum í dag; jafn fallegur og dagurinn var utan dyra hefur þetta mestan part verið þrugl hér í allan dag. Það er ástæða til að árétta það að umræða um fundarstjórn er algerlega á ábyrgð forseta og við í stjórnarandstöðunni höfum ítrekað kallað eftir því að fá að ræða hér um hag heimilanna í landinu, um lífskjörin, þá erfiðu stöðu sem er á vinnumarkaði og aðra hluti og gagnlegri en lögleysu meiri hluta atvinnuveganefndar.

Ég sakna þess líka að formaður jákvæða félagsins og þingflokks Framsóknarflokksins, Þórunn Egilsdóttir, sem lýsti því yfir hér á fundi með okkur, öðrum þingflokksformönnum, í morgun að hún ætlaði að taka þátt í efnislegri umræðu um málið í dag, skuli ekki hafa gert það. Sú aðför sem hér hefur verið gerð að hæstv. umhverfisráðherra, undir forustu formanns þingflokks Framsóknarflokksins, það verður ekki skilið öðruvísi, (Forseti hringir.) er auðvitað með slíkum ólíkindum að þingmaðurinn hlýtur að þurfa að koma hér upp og gera grein fyrir því með hvaða hætti skipulagi þessa stjórnmálaflokks, sem kallaður er Framsóknarflokkurinn, er eiginlega háttað.