144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er um ýmislegt fjallað, það er alveg ljóst, en það er ekki endilega víst að það dugi til að Páll Jóhann Pálsson fái ósk sína uppfyllta um að þetta sé allt klappað og klárt.

Virðulegi forseti. Mig langaði til að ræða hér um fundarstjórn forseta, meðal annars um dagskrána. Ég sagði fyrr í kvöld að 28. apríl hefði komið nefndarálit um frumvarp til lokafjárlaga 2013 sem þarf að afgreiða. 1. apríl var það meðferð sakamála og lögreglulög, grunnskólar, dómstólar og fullt af EES-málum og þá er ég bara að tala um mál sem snúa að allsherjar- og menntamálanefnd og fjárlaganefnd. Það er nóg að ræða af málum sem ég tel að við getum afgreitt hér án þess að allt fari í uppnám. Ég tel að það sé skynsamleg tillaga, sem lögð var fram áðan, að þetta mál verði hvílt og rætt betur á þeim vettvangi þar sem það er heppilegt en ekki hér í þingsal og að á dagskrá verði tekin mál sem skipta (Forseti hringir.) máli núna, meðal annars, eins og hér hefur verið nefnt, eigum við ekki að ræða eða leysa kjaramál hér á þingi en það gerum við meðal annars með því að ákveða hvernig við ætlum að hafa aðgengi að félags-, heilbrigðis- og menntamálum.