144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ákall fólks í verkföllum og fólks sem stendur í vinnudeilum að á það sé hlustað og lífskjör þess bætt. Í þinginu er ekki að sjá að menn heyri það ákall vegna þess að á dagskrá eru deilumál um ráðstafanir í auðlindamálum sem vitað var að enginn friður yrði um en mundu taka mikinn tíma frá þinginu. Síðan hefur komið í ljós að það er ekki einu sinni heil brú í þeim þegar kemur að því hvernig menn ætla að afgreiða þau út.

Ég legg til að forseti og meiri hluti þingsins sjái að sér og taki ákvörðun um að hlusta á það sem verið er að kalla eftir og koma inn með mál sem skipta fólkið í þessu landi alvörumáli og þá tugi þúsunda sem standa í verkföllum og vinnudeilum. Klukkan hálffimm verður hér fyrir utan útifundur um auðlindamálin. Ég held að það væri líka lag að við mundum þá gera hlé á (Forseti hringir.) þingfundi og fara út og tala við fólk og sjá hvað á því brennur í staðinn fyrir að standa í sirkus eins og þeim sem við urðum vitni að hér í gær.