144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst dagskrá þessa fundar er með þeim hætti sem raun ber vitni er einboðið að gera hlé á fundi klukkan hálffimm og gefa þingmönnum færi á að hitta mótmælendur sem hér munu koma á Austurvöll, það er líka full ástæða til þess fyrir stjórnarmeirihlutann að kynna sér sjónarmið náttúruverndarsinna sem þeir hafa kosið að horfa algjörlega fram hjá í þessari umræðu allri.

Ég vil síðan ítreka þær athugasemdir sem hér hafa komið fram um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það vekur manni auðvitað áhyggjur að lesa skrif varaþingmanna Sjálfstæðisflokksins sem eru farnir að mæla fyrir því að lög verði sett til þess að banna verkföll og til að hlutast til um niðurstöðu um kaup og kjör á vinnumarkaði. Maður veltir því fyrir sér: Er dagskránni háttað eins og við erum að verða vitni að hér til að taka athyglina frá því sem raunverulega er að gerast? Er hún til þess að koma ríkisstjórninni í skjól með aðför að samningsrétti verkalýðsfélaga? (Forseti hringir.) Til hvers er verið að setja á dagskrá mál sem valda jafn mikilli úlfúð og ágreiningi og þetta þegar mörg önnur brýnni mál bíða afgreiðslu og umræðu?