144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:07]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er skrýtið að sjá að stjórnarandstaðan heldur málþófinu áfram sem þau hófu hér um áramót, (Gripið fram í.) meira að segja fyrir þann dagskrárlið sem fær venjulega að byrja á réttum tíma, þetta kemur oft svona inn á milli ræða hjá þingmönnum.

Mig langar til að upplýsa það að ég bað upplýsingadeild þingsins um að taka það saman fyrir mig í gærkvöldi hvað væri búið að tala í marga klukkutíma undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. Í gærkvöldi milli sjö og átta þá voru þetta orðnir um níu klukkutímar.

Virðulegi forseti. Meira en einn vinnudagur í dagskrárliðinn um fundarstjórn forseta. Ég fékk senda slóð frá upplýsingadeildinni þar sem þetta er talið jafnharðan. Margir eru búnir að biðja um orðið undir þessum lið í þessum töluðum orðum. Á eftir ætla ég að gefa merki (Forseti hringir.) og gefa nákvæma stöðu á því hve margar ræður eru búnar þegar þessari hrinu er lokið og í hvað margar mínútur og í hvað margar klukkustundir.