144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræddum hér í gær þingsályktunartillögu með breytingartillögu frá hv. atvinnuveganefnd, en sú tillaga er ótæk af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi er lagaumbúnaðurinn ófullnægjandi en eins og fram hefur komið þá eru áhöld um það að hún standist lög, í öðru lagi er tillagan efnislega ótæk eins og fram hefur komið og í þriðja lagi býr hún við skort á pólitískum grundvelli, pólitísku baklandi. Það eina sem gengur við þessar kringumstæður er að draga breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar til baka og hefja hér umræðu um önnur mál. Annað gengur ekki upp.

Virðulegur forseti heldur því fram á miðlum að málið verði rætt þangað til því lýkur, en þessu máli lýkur ekki ef við ætlum að halda áfram að ræða þessa fordæmalausu breytingartillögu.