144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:11]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað og hvet hæstv. forseta til þess að setja þau málefni á dagskrá sem er í rauninni beðið eftir að verði tekin fyrir og ég nefndi hér í gær þegar ég talaði undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Það er áhugavert að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar skuli ætla að taka það að sér að halda utan um hvernig við stjórnarandstöðuþingmenn förum hér með tímann okkar. Það væri ekki úr vegi að fara svolítið yfir það og rifja það upp þegar hún var í stjórnarandstöðu. Í einu og sama málinu fór hún 115 sinnum í pontu (Gripið fram í.) og taldi það ekki vera málþóf og taldi sig ekki vera að segja sömu hlutina oft. Það var ekki alveg þannig. (Gripið fram í.)

Þetta er, virðulegi forseti, tækifæri til að koma óánægju okkar á framfæri við forseta og við gerum það og höfum gert og munum halda áfram að gera það. Það að forseti segi ákveðið að þetta mál verði á dagskrá þar til umræðu lýkur — henni lýkur þá bara og ekkert annað verður tekið fyrir, ef forseti ætlar að halda sínu striki.