144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og forseti man kannski þá spáði ég ekki vel fyrir því að þröngva þessum málatilbúnaði ófriðarhöfðingjans hv. þm. Jóns Gunnarssonar inn á dagskrá þingsins. Óraði mig þó ekki fyrir því að málatilbúnaðurinn ætti eftir að verða jafn hroðalega ónýtur og sýndi sig hér í gær þar sem hinn lagalegi grunnur breytingartillögunnar var meðal annars skotinn niður með lögfræðilegum minnisblöðum frá tveimur ráðuneytum sem lágu fyrir strax fyrir jól. Þá kemur í ljós að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur þrátt fyrir alla rannsóknarvinnuna ekki lesið þau eða bara ekki tekið mark á þeim. Auðvitað er úrskurður forseta líka skotinn niður með sama hætti.

Þetta horfir ekki gæfulega, virðulegur forseti. Nú er það ekki þannig að Alþingi vanti verkefni. Hér er nóg um að tala hvort sem væri ástandið á vinnumarkaði eða að snúa sér að afgreiðslu nokkurra tuga frumvarpa sem liggja tilbúin til 2. umr. og afgreiðslu eftir störf vetrarins í nefndum. En það kemst ekkert að nema þetta forgangsmál. Erum við þá öll í gíslingu (Forseti hringir.) hv. þm. Jóns Gunnarssonar? Eitt skal vera á hreinu, (Forseti hringir.) hér er stórmál á ferð ef út í það er farið, náttúra Íslands á bak við og það tekur enginn af mér (Forseti hringir.) rétt minn til þess að koma henni til varnar og allra síst hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. (Gripið fram í: … dagskrá.)