144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:17]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að nýta mér rétt minn samkvæmt þingsköpum til að taka til máls um fundarstjórn forseta sem er bundið í lög fyrr en ég heyrði að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefði beðið Alþingi um að taka saman tölulegar upplýsingar um þennan dagskrárlið. Beiðni mín til hv. þingmanns er að hún biðji um eitt skjal í viðbót þar sem umræður á síðasta kjörtímabili um fundarstjórn forseta yrðu bornar saman og settar kannski bara upp í tvo excel-dálka.

Hitt atriðið get ég tekið undir vegna þess að rammaáætlunarmálið gjörbreyttist í gær með fréttum af stöðu og áliti hæstv. umhverfisráðherra og svörum hér í gær í andsvörum eftir ræðu hennar. Það má eiginlega segja að hún hafi gert út af við málið. Væntanlega styðja einhverjir þingmenn Framsóknarflokksins hana í þessu.

Að lokum vil ég beina því til forseta að hann beiti sér fyrir því að við fyrsta tækifæri verði hæstv. menntamálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum. Mig langar að ræða við hann um myrkraverk sem hann er að vinna fyrir norðan og hefur enga lagastoð (Forseti hringir.) á bak við, þ.e. hann ætlar að næturlagi að sameina þrjá framhaldsskóla á Norðurlandi. Því er ég á móti og vil eiga orðastað við hann sem allra fyrst.