144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Svona lítur ósætti út. Við erum vitni að því. Þingið er í upplausn. Mig langar að spyrja álitlegra spurninga varðandi fundarstjórn hæstv. forseta, hvernig tök hann hefur á þinginu og hvaða væntingar hann hefur til þingsins. Bjóst hæstv. forseti við því að það yrði sátt um breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar? Ef hann bjóst ekki við því, af hverju gerði hann þá ekki eitthvað í því að reyna að skapa sátt um málið og beina því í uppbyggilegri farveg? Er hæstv. forseta alveg sama um ásýnd þingsins? Það liggur alveg fyrir að ef málið væri í þeim búningi sem það var lagt fyrir á þingi og fjallaði bara um Hvammsvirkjun væri það líklega að fara í atkvæðagreiðslu. Það er breytingartillagan sem hleypir öllu hérna upp. Það liggur fyrir álit frá tveimur ráðuneytum um að hún sé ekki í samræmi við lög. (Forseti hringir.)

Hvernig forseti vill hæstv. forseti vera? Vill hann byggja upp traust? Vill hann vinna að sátt? Vill hann bæta ásýnd þingsins? Nú reynir á þessar spurningar.