144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er rétt, það má finna í þingtíðindunum ummæli frá mér um að af tvennu illu séu virkjanir í neðri hluta Þjórsár skárri en að fara inn á óröskuð svæði. Þá var meðal annars Langisjór í samanburðinum. Það hefur ekkert með það að gera að ég er andvígur þessum virkjunum í dag og hef færst í aukana í þeim efnum eftir því sem ég hef kynnt mér stöðu mála betur. Ég tel óverjandi og óréttlætanlegt að fórna til dæmis einum stærsta villta laxastofni í Norður-Atlantshafinu.

Ég hallast að því að ríkisstjórn sem hefur sem liðsmenn hv. þingmenn Vigdísi Hauksdóttur og Jón Gunnarsson þurfi ekki á óvinum að halda eða andstæðingum, hún sé fullfær um að sjá um sig sjálf í þeim efnum. Það held ég að sé að koma á daginn. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir minnist stundum á að það hafi verið kosið hérna 2013 en það virðist hafa farið fram hjá þingmanninum að stjórnarflokkarnir fengu meiri hluta og það á að heita svo að þeir hafi myndað ríkisstjórn. En hvenær ætla þeir að taka til valda? [Hlátur í þingsal.] Hvenær ætla þeir að hætta að vera (Forseti hringir.) í stjórnarandstöðu við ríkisstjórn sem fór frá fyrir tveimur árum? Það er það eina sem kemst að í hugum þessara manna og á meðan rekur landið stjórnlaust. (Gripið fram í.)