144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:36]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér kom fram áðan. Það er ekki hvað mér eða hv. þm. Jóni Gunnarssyni eða hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni finnst um ákveðna virkjunarkosti, það er ekki það sem er til umræðu hér og ég hef áhyggjur af því að formaður atvinnuveganefndar skilji þetta ekki. Það sem er til umræðu og við erum að ræða er hvort forseta finnist almennt í lagi að einstaka þingmenn hagi sér ekki í samræmi við lög, lög um rammaáætlun sem kveða á um ákveðið verkferli, og geri bara eitthvað allt annað. Það er það sem við setjum spurningarmerki við og viljum stoppa. Forseti verður að skýra af hverju hann gerir það ekki. Er það til þess að láta okkur öll vera í pontu að ræða þetta af því að það er ekkert annað að ræða? Það er ekkert annað sem kemur frá ríkisstjórninni en það er fólk uppi á Landspítala sem fær ekki meðferð af því að við getum ekki fundið út úr því (Forseti hringir.) sameiginlega hvernig við getum hjálpað því. Þetta er skammarlegt.