144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ástæða þess að þetta er til umræðu undir liðnum um fundarstjórn forseta er sú að það eru lögmætar efasemdir um lagagrunn þessarar breytingartillögu. Þó að réttur þingmanna til að leggja fram tillögur sé ríkur hlýtur hann samt alltaf að takmarkast af gildandi lögum, ekki satt, herra forseti? Þess vegna spyr ég hvort ekki sé nauðsynlegt að fresta þessari umræðu þangað til við höfum fengið það óyggjandi á hreint að þessi tillaga sé þingtæk. Hún byggir á því að sex hv. þingmenn, Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Þórunn Egilsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson og Páll Jóhann Pálsson, telja sig hæfari til að leggja faglegt mat á virkjunarkosti rammaáætlunar en verkefnisstjórnin sem hefur lögbundnu hlutverki að gegna í lögum um rammaáætlun. Um það snýst þessi umræða, hvort þessi tillaga stangist ekki á við gildandi lög um rammaáætlun (Forseti hringir.) þrátt fyrir ríkan rétt þingmanna til að leggja fram tillögur. En þær hljóta að þurfa að vera í samræmi við gildandi lagaumhverfi og úrskurður forseta sem gekk út á það að honum sýndust ýmis rök hníga að því að þetta gæti verið í lagi er ekki nægjanlegur, herra forseti.