144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það vekur furðu hve mikil áhersla er lögð á að hafa þetta mál hér á dagskrá. Maður er alltaf að hugsa um hvað það er sem veldur. Er verið að reyna að greiða götu einkareksturs eða einkavæðingar í raforkukerfinu? Við vitum að einkaaðilar hafa sótt mjög stíft að komast í virkjun Hagavatns og fengu drjúgt pláss hjá atvinnuveganefnd við að kynna virkjunarhugmyndir sínar. (JónG: Hverjir fengu það ekki?) Og (JónG: Það fengu allir þann tíma sem þeir vildu.) ég heyri að hv. (Gripið fram í.) formaður atvinnuveganefndar (Gripið fram í.) er eitthvað órólegur (Forseti hringir.) í sætinu. Ég hef áhyggjur af því að það sé verið að teppaleggja fyrir einkavæðingu í raforkugeiranum. Er það ekki þessi ríkisstjórn sem setur það á oddinn að einkavæða hvar sem hún kemur því við? Menn ættu ekkert að vera feimnir við að gangast við því að það sé þeirra stefna. Er það ekki stefna sjálfstæðismanna? Það er spurning hvað þeir (Forseti hringir.) geta dregið Framsóknarflokkinn með sér í þeirri vegferð. (Gripið fram í.)