144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

dagskrá þingsins.

[15:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég vek athygli á nefndaráliti hv. þm. Kristjáns L. Möllers þar sem eftirfarandi kemur fram úr minnisblaði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til nefndarinnar 27. nóvember 2014:

„Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.“

Ef við samþykkjum þetta á Alþingi segir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sem á að vinna eftir þessum lögum um rammaáætlun: Nei, það er bara brot á lögum, það er ekki verið að fara eftir lögum.

Þar af leiðandi getur ráðherra ekkert framfylgt ályktuninni. Þessi lög voru sett 2011. Það átti að skipa til fjögurra ára í verkefnisstjórn sem sumum stjórnarþingmönnum finnst vera að tefja mál og vera of miklir umhverfisverndarsinnar. Það er hægt að skipa hana upp á nýtt ef menn vilja fara þá leiðina í stað þess að klára (Forseti hringir.) þetta hérna í þinginu, afgreiða það í lagalegri óvissu um virkjunarmál á Íslandi sem ráðuneytið sjálft segir að megi ekki gera af því að við erum ekki að semja lög, þetta er þingsályktunartillaga. (Forseti hringir.) Lögin trompa. Það á að taka þetta af dagskrá.