144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[15:53]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið með ólíkindum að horfa upp á starfið í þinginu í gær og í dag. Þetta er eins og leikhús fáránleikans. Hér er málþóf, minni hlutinn stendur fyrir algjöru málþófi og vill stöðva alla umræðu um atvinnuuppbyggingu í landinu, er á móti sjávarútveginum, reynir að berja hann niður við öll tækifæri og nú skal berja niður þá framtíð sem felst í nýtingu orkunnar.

Virkjun endurnýjanlegrar orku er gull framtíðarinnar, tækifæri unga fólksins og gerir Ísland að einu eftirsóknarverðasta landi heimsins til fjárfestinga fyrir framtíðina. Virðisauki orkunnar er auðvitað framtíð unga fólksins okkar.

Þessa umræðu kallar formaður þingflokks Samfylkingarinnar fánýta umræðu, fánýtt umræðuefni, þegar verið er að tala um framtíð unga fólksins í landinu og tækifærin sem virðisaukinn af raforkunni gefur okkur, af endurnýjanlegri raforku sem allar þjóðir heims sækjast eftir. (Gripið fram í: Það gefur okkur ... um það.)

Það var akkúrat það sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi á síðasta kjörtímabili, hann vildi fara eftir niðurstöðum rammaáætlunar sem menn urðu sammála um. En hvað gerðist þá? Þá breytti síðasta ríkisstjórn þeirri niðurstöðu og hafði auðvitað fulla heimild til þess á sama hátt og þessi ríkisstjórn og þetta þing hefur til að breyta þeirri niðurstöðu sem þá fékkst. (RM: Fylgjum lögunum!) Við þurfum að halda áfram á þessari braut. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

Í fótboltaleik gilda sömu reglur báðum megin á vellinum og þannig er það líka í þessum leik. Við skulum hafa það í huga. [Kliður í þingsal.] Förum varlega, göngum varlega um völlinn og sýnum það í umræðunni að við berum virðingu hvert fyrir öðru.

(Forseti (SJS): Forseti biður um hljóð í salnum og að ræðumönnum sé gefið gott hljóð.)