144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í gær hreyfði formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, við mikilvægu máli undir þessum dagskrárlið þingsins. Hann benti á að augljóst væri í þeim stóru málum sem við tökumst á um þessa dagana, varðandi auðlindir þjóðarinnar, að stjórnarskráin og leikreglurnar sem hún markar dygðu ekki. Þetta er dregið skýrt fram í umræðum um makrílmálið sem nú er í vinnslu í hv. atvinnuveganefnd og í umræðum um rammaáætlun sem er á dagskrá þingsins í dag með umdeildum breytingartillögum frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Undirskriftum er nú safnað þar sem þess er farið á leit við forseta Íslands að hann staðfesti ekki lög um makrílkvótasetninguna og vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs á meðan ekkert ákvæði um þjóðareign á auðlindum hefur verið sett í stjórnarskrá og þjóðinni hefur ekki verið tryggt fullt gjald fyrir afnot þeirra. Það er óásættanlegt, herra forseti, að við skulum eiga það undir einum manni hvað gert verður, sama hversu margar undirskriftir fást, og fráleitt að við búum ekki við skýrar reglur um það hvernig fólkið í landinu getur sjálft ákveðið að taka til sín átakamál.

Formaður Samfylkingarinnar minnti okkur á það í gær að það er opinn gluggi næsta árið til að breyta stjórnarskránni í samstöðu á Alþingi. Þann möguleika eigum við að nýta okkur og undir forustu stjórnarskrárnefndarinnar setja tillögurnar á dagskrá þingsins og í þjóðaratkvæðagreiðslu með forsetakosningunum 2016. Það er mikilvægt, herra forseti, að við látum þetta ekki úr greipum okkar renna heldur tökum á málinu á meðan tækifæri gefst.