144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

störf þingsins.

[16:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér var nú kannski í svolítið sérstöku samhengi verið að ræða mikilvægi ferðaþjónustunnar, en við skulum algerlega vera meðvituð um það að ferðaþjónustan er ein af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Þar eru gríðarlegir möguleikar. Ég held hins vegar að við eigum að hafa það í huga að hún stendur ekki ein og sér, heldur er þar samspil margra þátta. Það er einhver misskilningur ef menn halda að það séu eingöngu neikvæð áhrif af virkjunum sem tengjast ferðaþjónustu, menn þurfa ekki annað en að skoða heimsóknir í virkjanir, til dæmis Kárahnjúkavirkjun, ef svo ber undir.

Hins vegar eigum við eðli málsins samkvæmt að passa að skaða ekki þá hluti sem eru afskaplega verðmætir og vonandi næst samstaða um það. Mér finnst það til dæmis afskaplega vond hugmynd að setja raflínur yfir hálendið, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni þegar við ræðum þau mál.

Ég ætlaði hins vegar að koma hingað og lýsa furðu minni yfir því að stéttarfélag hefði gagnrýnt landlækni fyrir að sinna starfi sínu. Landlæknir er eftirlitsstofnun og hefur eitt hlutverk eða alla vega er hans stærsta hlutverk að tryggja öryggi sjúklinga. Þegar sú eftirlitsstofnun kemur með þau viðvörunarorð sem landlæknir hefur komið fram með gerir viðkomandi embætti það ekki að gamni sínu. Ef einhver ætlar að gagnrýna það hvort sem það er stéttarfélag eða eitthvað annað hlýtur viðkomandi aðili að koma með rökstudda ástæðu fyrir því. Eðli málsins samkvæmt hefur enginn náð fullkomnun, hvorki í embætti né neinu öðru, en viðkomandi stéttarfélag hlýtur að koma með rökstuðning fyrir því að gagnrýna landlækni fyrir að sinna starfi sínu. Ég vil vekja athygli á því og lýsa yfir ánægju með fulltrúa, þ.e. hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í velferðarnefnd, að hafa farið fram á að taka þetta mál fyrir í hv. velferðarnefnd, sem er gríðarlega mikilvægt og algert forgangsmál, þ.e. öryggi sjúklinga, (Forseti hringir.) og vonast ég til þess að þeir (Forseti hringir.) og aðrir nefndarmenn muni fylgja þessu máli þar fast eftir.