144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

umræðuefni dagsins.

[16:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir þá ósk og ítreka líka að það verði gert hlé á þessum fundi svo þingmenn geti farið hér út og talað við fólk sem er að safnast saman á Austurvelli til að mótmæla því sem hér er á dagskrá. Ég held að það sé kominn tími til að þetta þing sýni að það geti hlustað á það sem sagt er vegna þess að það er ekkert hingað til sem bendir til þess, a.m.k. ekki að stjórnarmeirihlutinn geri það. Mér finnst líka það margt hafa komið fram í máli hv. stjórnarþingmanna sem sitja í atvinnuveganefnd, hv. þingmanna Páls Jóhanns Pálssonar og Jóns Gunnarssonar, í gær í umræðum sem gefur tilefni til að þessu máli verði vísað aftur til nefndar. Það er alveg augljóst að meiri hluti nefndarinnar hefur verið meðvitundarlaus á fundum nefndarinnar þegar verið var að fjalla um þetta mál. Menn hafa ekki hugmynd um hvað snýr upp eða niður í þessu verkferli sem heitir rammaáætlun eins og hv. þm. Róbert Marshall fór ágætlega yfir áðan. (Forseti hringir.) Ég held að menn hafi verið að taka ákvörðun um að afgreiða þetta mál frá nefndinni með þessum breytingartillögum algjörlega án þess að vita nokkuð hvað þeir voru að gera (Forseti hringir.) og síðan kemur umhverfisráðherrann og leiðréttir þá. Þetta mál á ekki heima í þingsal. Það átti að fara aftur í nefnd.