144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

umræðuefni dagsins.

[16:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég kem hér upp í nafni karlmennskunnar og endurtek orð mín hafi þau ekki heyrst eða skilist. Hér liggur fyrir þingsályktunartillaga um nýjan virkjunarkost inn í rammaáætlun. Það liggur jafnframt fyrir breytingartillaga frá meiri hluta þingnefndar um að fjölga þeim virkjunarkostum. Um það segir umhverfisráðuneytið, með leyfi forseta:

„Það er því mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að lög nr. 48/2011 geri ekki ráð fyrir að Alþingi geti gert breytingar á flokkun þessara kosta þar sem lögbundið ferli verndar- og orkunýtingaráætlunar hefur ekki farið fram hvað þá varðar.“

Úr þessu vil ég fá skorið, herra forseti. Af hverju hefur forusta þingsins ákveðið að hunsa þessi orð ráðuneytisins og telja breytingartillöguna þingtæka? (Forseti hringir.) Að mínu viti er hún það ekki og ég legg til að umræðu verði frestað þangað til botn er kominn í þetta mál.