144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

umræðuefni dagsins.

[16:45]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur komið í ljós að það kom þingmönnum í hv. atvinnuveganefnd í opna skjöldu að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefði úrskurðað í nóvember sl. eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir fór yfir rétt í þessu. Það eru fleiri merki um að menn hafi verið algjörlega meðvitundarlausir í þessu nefndarstarfi í meiri hlutanum vegna þess að þeir átta sig ekki einu sinni á því, eftir alla þessa mánuði í umfjöllun málsins, hvernig verkferlið í kringum rammaáætlun er og opinberuðu þá vanþekkingu sína í ræðustól í gærkvöldi.

Það eru komnar svo margar ástæður fyrir því að kalla þetta mál aftur inn til nefndar. Þá ætla ég að koma að þeirri síðustu. Það er líka komið í ljós að þessi framkvæmd hér, þ.e. að koma með þessar breytingartillögur hingað inn, er í andstöðu við ráðherrann sjálfan sem leggur þingsályktunartillöguna fram og ekki bara í andstöðu við ráðherrann sjálfan heldur líka í andstöðu við fyrirrennara hæstv. ráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson. (Forseti hringir.) Í hverju stöndum við hér í fullkominni veruleikafirringu? Þegar eldar brenna á vinnumarkaði stöndum við í einhverjum leik fyrir hv. þm. Jón Gunnarsson. Til hvers? Til að sýna einhverja karlmennsku?

Virðulegi forseti. Það eru án efa fáir (Forseti hringir.) alvörukarlmenn sem vilja kenna sig við þá karlmennsku sem kynnt var hér til sögunnar áðan.