144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:24]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv þingmanni fyrir hans góðu ræðu. Ég ákvað að koma hér upp og spyrja nokkurra spurninga. Þegar hv. þm. Jón Gunnarsson kom hér í hliðarherbergi fór að hrópa inn í salinn, hálfjafnvægislaust að mínu mati, að hv. þingmanni um eitthvað sem hefði gerst á síðasta kjörtímabili, en menn virðast byggja málflutning sinn dálítið á því.

Mér finnst mikilvægt að taka það fram að það sem gerðist á síðasta kjörtímabili var eftirfarandi: Í fyrsta lagi var sett hér löggjöf í fyrsta skipti um rammaáætlun. Tekin var ákvörðun um að setja fyrstu málsmeðferðina í sérstakt bráðabirgðaákvæði þannig að menn gætu fylgt einhverju formlegu og samþykktu verkferli af því að lögin hefðu ekki tekið gildi. Þar var ákveðið að senda niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar í umsagnarferli og flokkun formanna faghópanna, sem hafði verið skilað til ráðherra, setja það í umsagnarferli og var kveðið á um það í lögunum. Eftir það umsagnarferli var ljóst að um nokkra kosti komu mjög margar athugasemdir og töluvert af athugasemdum um málefni sem ekki hafði verið fjallað um í faghópunum.

Á þeim forsendum var tekin ákvörðun um að í staðinn fyrir að sú sem hér stendur og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, sem þá var umhverfisráðherra, settum einhver pólitísk fingraför á ákvörðunina var ákveðið að láta þessi kosti njóta vafans og athugasemdirnar líka með því að færa þá í biðflokk. Og með því að færa þá í biðflokk var tekin ákvörðun um að biðja verkefnisstjórnina um að yfirfara athugasemdirnar þannig að við, pólitískt kjörnir fulltrúar, værum ekki að því.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að hann sat hér á þingi þá, (Forseti hringir.) hvernig hann upplifði það ferli og hvort hann telji að einhver fótur sé fyrir því sem hv. þm. Jón Gunnarsson er að segja, að hér hafi verið einhver pólitísk bolabrögð á ferðinni.