144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Snemma í ræðu sinni fór hv. þingmaður heilmikið út í ferlið sem þetta mál hefur gengið í gegnum og nefndi þar sérstaklega að hver einasti þingmaður og helst hver einasti Íslendingur ætti að geta haft einhverja aðkomu að ákvörðunartöku, ef ég skildi hv. þingmann rétt.

Mig langar til þess að heyra viðhorf þingmannsins og hugmyndir um það hvernig hægt sé að gera þetta ferli þannig í fyrsta lagi að um það ríki meiri sátt og í öðru lagi að hægt sé að lýðræðisvæða það.

Ég spyr sérstaklega í samhengi við stjórnarskrá, vegna þess að fram kemur á hinu háa Alþingi, bæði í málinu um makríl og í þessu máli, að við verðum að hafa einhverjar skýrar meginreglur, við verðum að hafa skýra sýn á það hvernig við ætlum að haga ákvörðunarferli um þennan málaflokk. Og það sem frumvarpið um makrílinn á sameiginlegt með þessu máli, að því er virðist er að það varðar lög sem Alþingi setur og vekur spurningar um hvenær Alþingi er farið að taka ákvarðanir sem eru lagalega vafasamar, þ.e. gagnvart öðrum lagabálkum en stjórnarskrá. Það finnst mér afskaplega hvimleitt og ég velti fyrir mér sýn hv. þingmanns á það hvernig haga megi þessum auðlindamálum almennt. Þá á ég líka við vatnsaflsvirkjanir og makríl og því um líkt í stóra samhenginu, í samhengi við stjórnarskrá og í samhengi við ákvörðunarrétt fólksins í landinu og síðast en ekki síst hvernig við hérna á Alþingi virðumst klúðra því trekk í trekk að haga ákvörðunarferlinu þannig að vit sé í því. Ég lít á þetta sem stórt viðfangsefni og vil heyra sem flestar hugmyndir í því sambandi.