144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á fyrri starfsferli mínum sem fréttamaður lenti ég stundum á viðmælendum sem voru svo vanir því að koma fram í sjónvarpi að þeir sögðu við tökumenn: Þú þarft ekkert að ramma mig inn í myndina, ég sé um það sjálfur.

Það er svolítið það sem mér dettur í hug þegar ég hlusta á hv. þm. Jón Gunnarsson af því að með þeim rökum sem hann hefur flutt hér ættum við alveg eins að geta falið honum að sjá um umhverfismatið. Getur hann ekki bara séð um umhverfismat framkvæmdanna vegna þess að það er það sem út af stendur? Hann getur bara komið hérna inn og sagt okkur hvernig þetta eigi að vera allt saman: Ég er búinn að umhverfismeta þetta og þetta er í fínu lagi, þetta er bara í góðu lagi. Og í sömu umræðu gætum við tekið bjöllu forseta og flutt að sæti hv. þm. Jóns Gunnarssonar, hún væri bara þar og hann stýrði fundinum úr sæti sínu eins og hann mundi helst vilja.

Auðvitað er þetta ekkert annað en frekjukallapólitík. Það er hörmulegt að horfa upp á þetta og það er náttúrlega átakanlegt líka (Forseti hringir.) fyrir þessa hv. þingmenn að átta sig á því að þetta gengur ekki, að menn eru einfaldlega ekki tilbúnir til þess að láta þetta yfir sig ganga.