144. löggjafarþing — 106. fundur,  13. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mál þar sem búið er að taka ákvörðun um að þingsályktunartillaga sem lögð var fram af ráðherra verði margfölduð, ef svo má að orði komast, með því að fjölga kostum sem fluttir verða í nýtingarflokk úr einum í fimm. Að auki hafa komið fram álit frá umhverfisráðuneytinu og atvinnuvegaráðuneytinu þar sem fram kemur að þessi málsmeðferð fari á svig við lög um rammaáætlun. Menn ákveða að málið sé engu að síður svo mikilvægt, mikilvægara en að taka á kjaradeilum á vinnumarkaði, að setja þurfi það dagskrá og tuddast með það hér í gegn. En hvar eru þá hv. þingmenn? Enginn þeirra situr undir umræðunni. Enginn situr hér og ver það sem þeir bera á borð. Það kemur enginn upp í andsvör og svarar spurningum. Ráðherrarnir eru fjarverandi. Það eru allir fjarverandi nema hv. þm. Ásmundur Friðriksson.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir því (Forseti hringir.) að hlé verði gert á fundinum þangað til umhverfisráðherra er kominn í hús og að hún sitji í þessari umræðu, vegna þess að við fáum aðeins að ræða þetta einu sinni.